154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

117. mál
[11:18]
Horfa

Flm. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Þetta er það sem stendur í þjóðaröryggisstefnunni og ég tek alveg undir það að þetta er ekki fullkomlega skýrt. En af því að hv. þingmaður spyr hvort það hafi verið einhver óeining í ríkisstjórn um þetta mál þá ætla ég að segja að ég sit nú ekki við það borð en það er alveg ljóst, og það er hv. þingmanni fullkunnugt um, að afstaða ríkisstjórnarflokkanna til t.d. aðildar að NATO er ólík. Sú sem hér stendur væri fullkomlega sátt við það að Ísland færi úr NATO en við erum í NATO og við höfum notað þann vettvang til þess að koma á framfæri friðarboðskap og því munum við halda áfram.

Varðandi það sem hv. þingmaður minntist á með Helguvík þá tek ég aftur undir að það er auðvitað óskýrt hvað er átt við með þessari undanþágu. Það er auðvitað öllum ljóst og algerlega á hreinu að skip í neyð eiga alltaf rétt á aðstoð. En hvort það sé svo að þarna sé komin einhver undanþága fyrir NATO skal ég ekki segja til um. En við sjáum þá þróun að þetta byrjaði í Færeyjum og síðan kemur þetta hingað til Íslands og ég get alveg sagt að ég er uggandi yfir því. Ég skil þjóðaröryggisstefnuna ekki með þeim hætti að þarna sé verið að opna á flutning hergagna eða slíks. (Forseti hringir.) Ég tel fullkomlega ljóst að þarna er um neyðarundanþágu að ræða.